Stærð: 780 x 190 cm Ég sæki efnivið minn úr náttúru Íslands og nota ull sauðkindarinnar sem reikar frjáls og óháð um fjöll og firnindi og hefur gefið af sér fæðu og efni í klæði og skæði allt frá landnámi árið 874. Landnámsmenn eyðilögðu hér skóga og smám saman blés jarðvegur upp og fauk á haf út. Verkið Bláfjöll er óður til framtíðarinnar þegar Ísland verður aftur að nokkru skógi vaxið og lauf setja sterkari svip á litrófið, þar sem blámi fjallanna verður þó áfram ríkjandi. Fyrst þæfi ég stórar voðir úr ull. Næst þrykki ég laufblöð á voðir. Inn á milli laufa sauma ég út smávaxinn gróður og blóm og það bregður fyrir flugum að leik. Blár litur voðanna er sprottinn af aðdáun minni á Heklu sem sífellt kemur á óvart og stöðugt breytir um lit. Í Íslendingabók eru nefndir Bláskógar við Þingvelli. Í verkinu Bláfjöll hefur skógurinn klætt fjöllin í sínum djúpa bláma. |